Mercedes-Benz W 120 árgerðir 1953-62

180 árgerð 1953

Mercedes-Benz 300 árgerð 1951

Einn af fyrstu 180 bílunum í smíðum.

Disel Pontonar voru mikið notaðir í leiguakstur víðsvegar um heiminn.

180a Ponton á Möðrudalsöræfum 1997

 Mercedes Benz 180D árgerð 1954

 

Hann var kallaður Ponton bíllinn sem var upphaf nýrrar kynslóðar bíla frá Mercedes-Benz. Ponton bílar frá Mercedes eru þeir fyrstu sem komu á markað með algerlega sjálfberandi yfirbyggingu og krumpugrind til að mýkja högg við árekstur. Eitthvað sem menn kannski halda að sé ekki svo gömul uppfinning.

Ponton er eftir því sem við komumst næst vinnuheiti fyrir sjálfberandi brú. Það þótt því viðeigandi að gefa þessari nýju hönnum á bíl þetta vinnuheiti. Síðan hefur þetta fest sig í sessi sem heiti á þessari gerð Mercedes-Benz bíla og eru þeir kallaðir þessu nafni um allan heim og eigendur þessara bíla kalla þá yfirleitt ekki annað en "Pontoninn sinn".

Fyrstu Ponton bílarnir sem litu dagsins ljós voru af gerðinni 300 (W186) en bílar af gerðinni 180 voru minnstu bílarnir sem framleiddir voru í þessum svokallaða Ponton flokki. 300 bíllinn var fyrst kynntur til sögunnar árið 1951 en litli bróðirinn 180 var fyrst sýndur almenningi  snemma á árinu 1953.

Þessi hluti ummfjöllunarinnar birtist einnig í grein um W180, W105 og W128. 

Þessi gerð Ponton bíla, W120, var framleidd í mörgum mismunandi  útgáfum, ýmist með 4ra strokka bensín- eða dísilvélum frá júlí 1953 til október 1962. Ekki áttu sér stað miklar breytingar á útliti bílanna á þessu tímabili en nokkrar þó. Sem dæmi má nefna að til eru þrjár mismunandi breiddir af grillum, tvær gerðir af stuðurum, tvær gerðir af hjólkoppum og þrjár stærðir af afturljósum, allt eftir árgerð bílsins. Árið 1956 var svo kynntur til sögunnar íburðarmeiri og dýrari útgáfa af 4ra strokka Ponton, W121, eða 190 útgáfan. Sá bíll hafði aflmeiri vél og nokkurn meiri íburð í útliti. Á honum var meira króm og að innan mátti sjá viðarfjöl ofaná mælaborðinu í stað plast klæðningar í W120. 190 bíllinn hafði líka aflmeiri hemlabúnað og sjálfvirkar útíherslur á hemlakerfi. Þessir bílar voru boðnir samhliða allt þar til arftakinn 190c, W110, bíllinn kom árið 1962.

 

Ponton bílar eru einstaklega vel hannaðir bílar hvað varðar aksturseiginleika og láta sérstaklega vel af stjórn. Það er ákaflega gott að aka þeim og þetta voru algerir framúrstefnubílar hvað þetta varðar á sínum tíma. Á vondum vegum Íslands var hægt að svínkeyra þessar drossíur án þess að finna fyrir veginum eins og margir sögðu. Það er líka margt annað vel hannað í þessum bílum. Mercedes-Benz lagði mikið uppúr því að vanda hluti eins og hurðarlæsingar og lamir. Þeir vissu sem var að bíll sem er eins og drusla að ganga um hann verður fljótt drusla í augum eiganda án þess þó að hann sé það. Það eru líklega engar hurðir eins og hurðir á Ponton. Þær falla frábærlega og lokast alveg án þess að þeim þurfi að henda aftur eins og einhverjum kafbátahlera.

 

Margar sérstakar útgáfur eru til af Ponton bílum. Enn eru til í heiminum sjaldgæfir pallbílar og ýmsar gerðir af skutbílum og sjúkrabílum. Þessir bílar eiga sér mikla sérstöðu hvað það varðar að þeir voru ekki framleiddir af Mercedes-Benz nema að hluta til. Mercedes-Benz skilaði þessum bílum út úr verksmiðjunni hjá sér eins og afsöguðum fólksbílum tilbúnum til yfirbyggingar. Það var í flestum tilfellum Binz-Karosserie sem byggði yfir þessa bíla og þess vegna hafa þeir oftast í seinni tíð verið kallaðir Binz en ekki Benz.


 

Árið 1954 fékk Ræsir hf umboð á Íslandi fyrir Mercedes-Benz bílum. Af því tilefni voru fluttir inn nokkrir bílar til sýningar og var farin sýningaferð um landið. Myndin hér til hliðar vinstra megin, þar sem verið er að ýta svörtum Ponton bíl upp úr læk, er tekin í þeirri sýningaferð og sýnir vandræði starfmanna Mercedes-Benz og Ræsis við að komast um vegakerfi Íslensku þjóðarinnar á þeim árunum.

 

 

W 120 bílarnir eru:

180

árgerðir 1953 til 1957

180D

árgerðir 1954 til 19559

180a

árgerðir 1957 til 1959

180b

árgerðir 1959 til 1961

180Db

árgerðir 1959 til 1961

180c

árgerðir 1961 og 1962

180Dc

árgerðir 1961 og 1962

 

Greinarhöfundur: Rúnar Sigurjónsson

 

Ljósmyndasafn Ponton