Mercedes-Benz W110 árgerðir 1961-68

190c árg 1961.

Einn af síðustu Ponton bílunum.

 

 

200D árg 1965.

Einskonar eldflaug var notuð til að ýta bílunum af stað þegar verið var að framkvæma árekstrapróf.

Að prófi loknu.

190c sjúkrabíll, yfirbyggður af Binz-Karosserie.

Universal yfirbygging. 

Hann hefur oftast verið nefndur því sérstaka nafni Heckflosse eða Afturuggi (Heck = Afturhluti / Flosse = Uggi) allt frá því að fyrstu bílarnir með þessu nafni litu dagsins ljós árið 1959. Eins og svo oft í sögu Mercedes-Benz var það var stóri bróðirinn og það í þessu tilfelli 220b og 220Sb (W111) sem komu fyrstir árið 1959.

Það blöðrulaga lag sem einkennt hafði Ponton bíla Mercedes-Benz var orðið barn síns tima og óneitanlega miðað við tískustrauma á enduðum sjötta áratugnum orðið löngu úrellt og kominn tími fyrir nýja og nútímalegri hönnun. Eins og getið er í umfjöllun um W111 bílana urðu þeir hönnuðir sem þá unnu að verkefninu fyrir miklum áhrifum tískunnar á þeim árum, en það er óhjákvæmilegt að halda öðru fram en að vængjaláfustælar Amerískra bifreiðaframleiðanda, sem orðin var til vegna áhrifa af ítölskum ýmindum um hvassar og útstæðar línur á árunum rétt fyrir 1960, hafi haft áhrif á útlit  þessa bíls. Sumum hefur fallist svo orð að Mercedes-Benz menn hefðu betur sleppt því en ekki eru allir sammála því. Mörgum hefur þótt þessi hönnun hugguleg og alveg ljóst að Mercedes-Benz hönnuðir fóru rétta leið með að gæta hófs í uggamyndun, eithvað sem t.d. starfsbræður þeirra hjá Chevrolet klikkuðu illilega á þegar þeir settu á markað eithvað það sérkennilegasta vængjatrog sem á götum hefur sést árið 1959.

Þessi bíll W110 var minnsti bíllinn í Heckflosse línunni. Hann var eingöngu með fjögura strokka vélum, ýmist bensín eða dísil rétt eins og þeir forverar, litlu Pontonarnir þeir W120 og W121 (180 og 190 bílar). Þessi bíll var fyrst settur á markað árið 1961, tveim árum á eftir stærri bróður W111 og var framleiddur samhliða nokkrum af síðustu Ponton bílunum sem voru fáanlegir allt til ársins 1962.

Við hönnun yfirbyggingar þessa bíls var ljóst að fátt væri hægt að nýta úr hönnun á hinni stórmerku yfirbyggingu Ponton sem á sínum tíma hafði verið svo á undan sinni samtíð hvað varðaði sjálfburðinn og grindarleysið. Teikningarnar af forveranum voru því í einni heilli möppu settar í ruslið og byrjað nánast því algerlega frá grunni. Afraksturinn varð bíll sem var lægri og nútímalegri með burðinn að meira leiti í sílsum heldur en í miðjustokk bílsins. Breyting á aksturshæfni og stýrisbúnaði voru þónokkrar án þess þó að niðurstaðan væri eithvað verri bíll. Síður en svo. Hann var bara öðruvísi bíll. Íslendingum þótti þessi bíll ekki eins þýður, enda ekkert að marka vegakerfi sem státaði af eithverjum grófustu drulluslóðum sem fundust í Evrópu. Á þjóðvegakerfi nútímans finnst hinsvegar munurinn á þessum tveim bílum. Ponton er kanski helst til þýður fyrir þjóðvegi nútímans á meðan Heckflosse er heldur þéttari augljóslega hannaður frekar fyrir akstur á bundnu slitlagi. Þjóðvegir nútímans eins og við þekkjum þá hér í dag héldu nefnilega innreið sína inn í lönd  Evrópu miklu fyrr en hjá okkur, litlu og vanmáttugu slorkaupmönnunum í norðurhafi.

Hluti af hinum nýja bíl var nú aukinn krafa neytenda um umferðaröryggi. Með tilkomu á nýju boddýi hófust fyrir alvöru árekstraprófanir. Mercedes-Benz menn höfðu reyndar alltaf haft áhuga á að bílarnir þeirra væru öruggir. Gamli Pontoninn var t.d. fyrstur bíla með sjálfberandi öryggisyfirbyggingu með krumpusvæðum og þegar Volvo státar sig að því að hafa verið fyrstir bíla til að hafa öryggisbelti sem staðalbúnað glotta þeir hjá Mercedes-Benz út í annað og segja "Við erum ekkert að eyðileggja þessa ánægju fyrir þeim. Við vorum hinsvegar fyrstir til að bjóða uppá bílbelti í Evrópu". Eins og sumum er kannski kunnugt um var það hinsvegar framsýni bandaríski bílasmiðurinn, sem reynt varað dæma út úr bílabransanum á sínum tíma, Preston Tucker sem fyrst kom með bílbelti árið 1948 í Tucker bíl sínum.

Útgáfur Heckflosse bíla voru ýmsar. og sumar þeirra höfðu sést áður. Þó var það ein nýjung sem ekki hafði sést áður. Það var svokallaður "flugvallaleigubíll" sem var í raun ekkert annað en lengdur fjögura dyra fólksbíll. Smíði skutbíla hélt áfram við sama keip að vera ekki höndum Mercedes-Benz heldur yfirbyggingasmiðja  sem byggðu yfir einskonar hálfboddý. Nú hafði þó  Binz-Karosserie orðið nóg að gera í að smíða yfir sjúkrabíla og ýmsar aðrar sérstæðar útgáfur og lagði í raun smíði venjulegra skutbíla fyrir almenning á hilluna. Nýtt fyrirtæki, Universal kom þá til sögunar og voru flestir af þeim annars fáu venjulegu skutbílun sem smíðaðir voru í yfirbyggingu hjá þeim. Af þessum sökum var aðeins sjúkrabíllinn af Heckflosse gerð kallaður Binz, en hinir bara Mercedes-Benz Universal eðli málsins samkvæmt.

W110 bílarnir eru:

190c árgerðir 1961 til 1965

190Dc árgerðir 1961 til 1965

200 árgerðir 1965 til 1968

200D árgerðir 1965 til 1968

230 árgerðir 1965 til 1968

 

 

Greinarhöfundur: Rúnar Sigurjónsson

Ljósmyndasafn Heckflosse